Tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2014

Sævar Helgi Bragason 23. des. 2014 Fréttir

Hér eru tíu bestu stjörnuljósmyndir (og stuttmynd) ársins 2014 að mati Stjörnufræðivefsins!

  • Geimfarar stökkva af Verona Rupes, hæsta klettavegg sólkerfisins

Stjörnufræði er myndræn vísindagrein. Ár hvert eru þúsundir ljósmynda teknar af undrum alheimsins, hvort sem er af stjörnuáhugafólki, stjörnufræðingum eða vélvæddum sendifulltrúum jarðarbúa í sólkerfinu. Margar þessara mynda eru gullfallegar, oft hreinustu listaverk, sem verðskulda að sem flestir fái notið.

Hér undir höfum við valið tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2014. Þessar myndir voru fyrst og fremst valdar út frá fegurð (sem er huglætt mat hvers og eins), en ekki síst vísindalegu. Við hverja mynd er lýsing á því sem fyrir augun ber. Viðfangsefnin eru nefnilega ekki síður áhugaverð en falleg.

10. Tíu þúsund vetrarbrautir í títuprjónshaus

Hubble Ultra Deep Field 2014
Mynd: NASA; ESA, H. Teplitz og M. Rafelski (IPAC/Caltech), A. Koekemoer (STScI), R. Windhorst (Arizona State University) og Z. Levay (STScI)

Hubble geimsjónaukinn hefur horft lengra út í geiminn en nokkur annar sjónauki. Hér sjást tíu þúsund vetrarbrautir á svæði á himninum sem er álíka stórt og títuprjónshaus í útréttri hendi. Flestar eru í 5 til 10 milljarða ljósára fjarlægð frá okkur, en fjarlægustu vetrarbrautirnar sjást aðeins nokkur hundruð milljón árum eftir Miklahvell. Skyldi einhver eiga heima í einhverri þessara vetrarbrauta?

Sjá einnig: Hubble tekur litríka mynd af þróunarsögu alheims

9. Rauða reikistjarnan

Mars frá Mars Orbiter Mission
Mynd: ISRO/Ted Stryk

Í september fór indverska geimfarið Mars Orbiter Mission eða Mangalyaan á braut um Mars. Hér sést rauða reikistjarnan eins og hún birtist geimfarinu úr 74.500 km hæð hinn 28. september 2014. Á norðurhveli sjást rykstormar en á suðurhveli glittir í pólhettuna. Búið er að vinna myndina þannig að litirnir passi við það sem mannsaugað myndi greina.

8. Halastjarnan 67P/C-G í návígi

Halastjarna Rosetta í návígi
Mynd: ESA / Rosetta / MPS fyrir OSIRIS teymið; MPS/UPD/LAM/IAA/SSO/INTA/UPM/DASP/IDA

Einn af hápunktum stjörnufræðiársins var þegar evrópska geimfarið Rosetta fór á braut um halastjörnuna 67P/Churyumov-Gerasimenko eftir tíu ára ferðalag um geiminn. Halastjarnan reyndist furðulegri en menn bjuggust við. Hún hefur „höfuð“ og „búk“ og minnir um margt á gúmmíönd. Hér sjást báðir hlutar ásamt „hálsinum“.

Sjá einnig: Rosetta komin á áfangastað

7. Rauða lónið

Mynd VST sjónauka ESO af Lónþokunni Messier 8. Mynd: ESO/VPHAS+ team
Mynd: ESO/VPHAS+ team

Þetta risavaxna gas- og rykský er fæðingarstaður stjarna í um 5000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Skýið er um 100 ljósár í þvermál og er kallað Lónþokan eða Messier 8. Nýfæddar og mjög heitar stjörnur gefa frá sér útfjólublátt ljós sem lýsir lónið upp. Rauði liturinn stafar af glóandi vetnisgasi.

Sjá nánar: Sýnishorn úr fjársjóðskistu kortlagningarsjónauka — VST tekur mynd af Lónþokunni

6. Auga stormsins

Sjáaldrið í auga Júpíters. Ganýmedes varpar skugga á Stóra rauða blettinn
Mynd: NASA, ESA og A. Simon (Goddard Space Flight Center). Þakkir: C. Go og Hubble Heritage Team (STScI/AURA)

Hinn 21. apríl árið 2014 tók Hubble geimsjónauki NASA og ESA þessa glæsilegu mynd af gasrisanum Júpíter, stærstu reikistjörnunni í sólkerfinu okkar. Á myndinni sést kolsvartur skugginn sem Ganýmedes, stærsta tungl Júpíters og jafnframt stærsta tungl sólkerfisins, varpar á Stóra rauða blettinn á Júpíter, sem hefur farið minnkandi á síðustu áratugum. Myndin sem hér sést er í náttúrulegum litum.

Sjá einnig: Sjáldrið í auga Júpíters

5. Norðurljósa- og eldgosabjarmi

Norðurljósa- og eldgosabjarmi yfir Jökulsárlóni
Mynd: © Stephane Vetter

Eldgosið í Holuhrauni skreytti ekki aðeins landslag Íslands heldur líka íslenska stjörnuhiminninn. Hér sést rauðleitur bjarminn frá eldgosinu og norðurljósabjarmi á hálfskýjuðum himni yfir Jökulsárlóni hinn 18. september 2014. Græni litur norðurljósanna stafar af jónuðu súrefni í um 100 km hæð. Bjarta stjarnan á hægri helmingi myndarinnar er Vega.

4. Árekstur!

Árekstragígur á Mars
Mynd: NASA/JPL/University of Arizona

Einhvern tímann milli júlí 2010 og maí 2012 myndaðist þessi 30 metra breiði gígur á Mars. Víð áreksturinn varð mikil sprenging sem þeytti efni allt að 15 km frá gígnum. Gígurinn varð til í mjög rykugu landslagi. Búið er að ýkja litinn til að draga fram smáatriði.

Sjá einnig: Nýr og glæsilegur árekstragígur

3. Sköpun sólkerfis

Sköpun sólkerfis í kringum HL Tauri
Mynd: ALMA (ESO/NAOJ/NRAO)

Einhvern veginn svona hefur verið umhorfs þegar sólkerfið okkar var að myndast fyrir rúmum 4,5 milljörðum ára. Á myndinni, sem kemur frá ALMA sjónaukanum í Chile, sést ung sólkerfi í mótun. Í kringum ungu stjörnuna í miðjunni, sem kallast HL Tauri, er efnisskífa úr afgangsgasi og -ryki.

Við ótal árekstra límast rykagnir saman og stækka upp í stærð sandkorna og lítilla sveinvala. Í skífunni myndast að lokum smástirni og halastjörnu og jafnvel reikistjörnum úr þessum ögnum. Ungar reikistjörnur hafa mótandi áhrif á skífuna. Þær mynda hringi, geilar og eyður á borð við þær sem ALMA kom auga á. Myndin er byltingarkennd. Aldrei áður höfum við séð myndun sólkerfis í viðlíka smáatriðum.

Sjá einnig: Byltingarkennd mynd ALMA sýnir sköpun reikistjarna

2. Sjálfsmynd Rosetta

Sjálfsmynd Rosetta
Mynd: ESA/Rosetta/Philae/CIVA

Sjálfsmyndir voru vinsælar árið 2014, líka hjá sendifulltrúum jarðarbúa í sólkerfinu. Philae lendingarfar Rosetta leiðangursins tók þessa mynd af Rosetta með halastjörnuna 67P/Churyumov-Gerasimenko úr 16 km hæð hinn 7. október 2014. Annað sólarþil geimfarsins sést vel, sem og gas- og rykstrókar sem standa út úr „hálsi“ halastjörnunnar.

1. Ferðalangar

Wanderers - a short film by Erik Wernquist from Erik Wernquist on Vimeo.

Dag einn munu menn vonandi ganga um ísilagt yfirborði Evrópu, svífa yfir metanstöðuvötnum Títans og stökkva fram af Verona Rupes klettunum á Úranusartunglinu Míröndu, hæsta hamravegg sólkerfisins. Fallið tæki um það bil tólf mínútur en lendingin yrði mjúk.

Wanderers eða Ferðalangar er stuttmynd sænska leikstjóran Eriks Wernquist. Í henni er ferðast um spennandi staði í sólkerfinu undir orðum stjörnufræðingsins Carls Sagan. Allt sem sést í myndinni gæti orðið að veruleika dag einn, sumt vissulega í mjög fjarlægri framtíð.

Þótt hér sé vissulega ekki um ljósmynd að ræða veitti engin mynd manni meiri innblástur en stuttmyndin „Ferðalangar“. Ferðalangar létu okkur dreyma á ný. Þess vegna veljum við hana „stjörnumynd“ ársins 2014.

Geimfarar á göngu yfir ísilagt yfirborð Evrópu
Geimfarar á ísilögðu yfirborði Evrópu með Júpíter í bakgrunni.
Geimfarar stökkva af Verona Rupes, hæsta klettavegg sólkerfisins
Geimfarar stökkva af Verona Rupes, hæsta hamravegg sólkerfisins á Úranusartunglinu Míröndu.

Tengt efni

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
E-mail: [email protected]
Sími: 8961984