Tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2012

Sævar Helgi Bragason 10. des. 2012 Fréttir

Ár hvert eru þúsundir ljósmynda teknar af undrum alheimsins. Hér eru tíu af þeim fallegustu sem teknar voru árið 2012.

  • tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2012

Stjörnufræði er einstaklega myndræn vísindagrein. Ár hvert eru þúsundir ljósmynda teknar af undrum alheimsins, hvort sem er af stjörnuáhugafólki, stjörnufræðingum eða vélvæddum sendifulltrúum jarðarbúa í sólkerfinu. Margar þessara mynda eru gullfallegar, oft hreinustu listaverk, sem verðskulda að sem flestir fái notið.

Hér undir höfum við valið tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2012. Þessar myndir voru fyrst og fremst valdar út frá fegurð (sem er huglætt mat hvers og eins), en ekki síður vísindalegu. Við hverja mynd er lýsing á því sem fyrir augum ber. Viðfangsefnin eru nefnilega ekki síður áhugaverð en falleg.

Njótið!

(ATH! Ef myndirnar raðast skringilega upp, smelltu þá á Refresh í vafranum þínum)

10. Blekkjandi vetrarbrautatvíeyki

NGC 3314, vetrarbrautir
Mynd: NASA/ESA/Hubble Heritage Team (STScI/AURA)-ESA/Hubble Collaboration og W. Keel (Univ. of Alabama)

Stundum blekkir útlitið. Á þessari fallegu mynd Hubblessjónauka NASA og ESA sjást tvær vetrarbrautir sem virðast vera að renna saman í eina. Í raun skilja þó tugir milljóna ljósára á milli þeirra. Vetrarbrautirnar eru einfaldlega í sömu sjónlínu frá okkur séð.

Tvíeykið nefnist NGC 3314. Vetrarbrautin sem er nær okkur, er í um 117 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni en sú fjarlægari er 140 milljón ljósár í burtu. Sú nálægari líkist mjög vetrarbrautinni okkar með sína fallegu þyrilarma og bjálka sem hverfast um miðjuna. Í örmunum eru ungar bláleitar stjörnur en nær miðjunni eru eldri og rauðleitari stjörnur.

9. Curiosity kemur inn til lendingar

Curiosity, lending
Mynd: NASA/JPL-Caltech/University of Arizona

Góður ljósmyndari er oft á réttum stað á réttum tíma. Þegar Mars Science Laboratory eða Curiosity lenti á yfirborði Mars þann 6. ágúst 2012, flaug Mars Reconnaissance Orbiter (MRO) yfir lendingarstaðinn og fangaði ótrúegt augnablik á mynd.

Í MRO er HiRISE, öflugasta myndavél sem send hefur verið til annarrar reikistjörnu. Þótt geimfarið hafi verið álíka langt frá Curiosity og Reykjavík er frá Akureyri, sá HiRISE samt jeppann þar sem hann hékk í fallhlífinni um það bil einni mínútu fyrir lendingu.

8. Ástarstjarnan setur fegurðarblett á sólina

Venus, þverganga
Mynd: Andri Ómarsson/Geimstöðin

5.-6. júní 2012 fylgdust milljónir manna víða um heim með síðustu þvergöngu Venusar á 21. öld. Í Öskjuhlíð í Reykjavík börðu um 1.500 manns þennan sárasjaldgæfa atburð augum með hjálp félagsmanna í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness.

Þessi mynd var tekin þar en á henni sést ástarstjarnan ofarlega á skífu sólar, fáeinir sólblettir og ský sem settu skemmtilegan svip á atburðinn.

Næst gengur Venus fyrir sólu 10.-11. desember 2117.

7. Hringadróttinn og Títan

Satúrnus, Títan
Mynd: NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute

Næst stærsta tungl sólkerfisins, Títan, svífur fyrir framan næst stærstu reikistjörnu sólkerfisins, Satúrnus. Litirnir eru náttúrulegir: Svona sæi geimfari þessa fegurð með eigin augum!

Myndina tók Cassini geimfar NASA úr um það bil 778.000 km fjarlægð frá Títan eða sem samsvarar rúmlega tvöfaldri fjarlægðinni jarðar og tunglsins. Satúrnus er um tvo milljón km í burtu.

Næfurþunnir hringarnir varpa breiðum skuggum á suðurhvelið. Það er að vora á norðurhvelinu svo heiðblái liturinn sem tók á móti Cassini árið 2004 er að dofna hægt og rólega. Á suðurhvelinu boðar heiðblái liturinn komu vetursins. Á Satúrnusi standa árstíðirnar yfir í sjö ár.

Ef vel er að gáð sést móða í kringum Títan en þetta eru ystu lög lofthjúpsins. Títan er eitt af undrum sólkerfisins. Þetta stærsta tungl Satúrnusar er stærra en reikistjarnan Merkúríus og býr yfir mörgum leyndardómum. Þótt þar ríki fimbulkuldi eru þar stöðuvötn, reyndar ekki úr vatni heldur fljótandi metani sem rignir úr lofthjúpnum. Kannski eru þar líka eldfjöll sem gjósa ís.

6. Stjörnuverksmiðja í Kilinum

Kjalarþokan, Carina nebula, NGC 3372, Eta Carinae
Myndir: ESO. Þakkir: VPHAS+ Consortium/Cambridge Astronomical Survey Unit

Djúpt í hjarta vetrarbrautarinnar, á suðurhveli himins, er ein nálægasta útungunarstöð stjarna í nágrenni okkar í geimnum. Þessi stjörnuverksmiðja nefnist Kjalarþokan og hefur þegar getið af sér fjölda stjarna og stjörnuþyrpinga.

Kjalarþokan er glóandi gas- og rykský í um það bil 7.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Skýið er að mestu úr vetni sem gefur frá sér bleikleitan bjarma þegar stjörnurnar í skýinu örva gasið. Þarna eru reyndar öll frumefni sem finna má í náttúrunni. Til dæmis er glóandi súrefni grænleitt ofarlega á myndinni.

Í Kjalarþokunni eru nokkrar af björtustu og þyngstu stjörnum sem þekkjast. Ein þeirra er hin dularfulla og óstöðuga Eta Carinae. Dag einn mun hún enda ævi sína í mestu flugeldasýningu náttúrunnar, sem sprengistjarna.

Þessi glæsilega mynd var tekin með VLT Survey Telescope í Paranal stjörnustöð ESO í Chile. Fyrr á árinu birtist einnig innrauð mynd af sama skýi sem er ekki síður glæsileg.

5. Hjálmur Þórs

Þórshjálmsþokan, Thor's Helmet Nebula, stjörnumyndunarsvæði, geimþoka, NGC 2359
Mynd: ESO/B. Bailleul

Þórshjálmurinn er stjörnumyndunarsvæði í um 15.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Stórahundi. Hjálmurinn er gaskúla, meira en 30 ljósár í þvermál, mynduð fyrir tilverknað vinds frá bjartri og massamikilli stjörnu nálægt miðju hennar sem blæs gasinu og rykinu burt.

Þessi litríka mynd var tekin með Very Large Telescope ESO þann 5. október síðastliðinn í tilefni af 50 ára afmæli Stjörnustöðvar Evrópulanda á suðurhveli.

4. Umbrot á sólinni

sólin, sólgos
Mynd: NASA Goddard Space Flight Center/SDO AIA Team

Þann 31. ágúst 2012 urðu meðalstór en tignarleg umbrot á sólinni. Nokkur hundruð þúsund km langur þráður — margfalt stærri en jörðin — úr glóandi heitu rafgasi þaut út frá sólinni á ógnarhraða út í geiminn. Þremur dögum eftir að sólgosið hófst kom gusa af rafeindum og róteindum yfir jörðina. Þessar rafhlöðnu agnir rákust á segulsvið og lofthjúp jarðar svo úr varð glæsileg norðurljósasýning.

Solar Dynamics Observatory gervitungl NASA fylgdsti grannt með gosinu sem stóð yfir í fáeina daga og tók glæsileg myndskeið af því.

3. Paradís jarðfræðingsins

Curiosity, Sharp fjall, Aeolis Mons
Mynd: NASA/JPL-Caltech/Malin Space Science Systems

Marsjeppinn Curiosity var sendur til Mars til að rannsaka fjall nokkurt í 150 km breiðum gíg. Fjallið er lagskipt en þessi lög eru eins og blaðsíður í bók um ævisögu svæðisins sem bíða þess að jarðfræðingar lesi.

Curiosity hefur sautján augu, þar á meðal eitt sem er öflugasta aðdráttarlinsa sem send hefur verið til Mars. Hún gerir jeppanum kleift að þysja inn að áhugaverðum fyrirbærum í fjarska.

Skömmu eftir lendingu beindi Curiosity sjónum sínum að Sharpfjalli og tók þá þessa mögnuðu mynd.

Fremst sést malarsvæði í rúmlega 100 metra fjarlægð frá jeppanum. Þar fyrir ofan er lægð en síðan tekur við rauðbrúnn, hnullungastráður gígbarmur. Fjær sjást dökkar sandöldur og svo fyrirheitna landið — paradís jarðfræðingsins — setlögin í Sharpfjalli, um 10 km í burtu. Nokkurt mistur er í loftinu.

Myndin hefur verið birtu- og litastillt svo hún líkist fremur því sem við sæjum á jörðinni. Þetta er gert svo jarðfræðingar sem starfa við leiðangurinn og eru vanir rannsóknum á jörðinni, eigi auðveldar með að túlka það sem fyrir augum ber.

2. Auga stormsins

Satúrnus, stormur, norðurpóll
Mynd: NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute

Cassini hefur óviðjafnanlegt útsýni. Geimfarið hringsólar um sjálfan Satúrnus og skyggnist stundum inn í skýin í lofthjúpnum með innrauðri sjón sinni.

Í lok nóvember 2012 tók Cassini þessa mynd af ólgandi óveðursskýjum og rjúkandi hvirflum við norðurpól reikistjörnunnar. Þarna er vindhraðinn næstum því 100 metrar á sekúndu og kuldinn nístandi — yfir 170 stiga frost.

1. Ferðamaðurinn Forvitni

Curiosity, Mars Science Laboratory, Mars jeppi
Mynd: NASA/JPL-Caltech/Malin Space Science Systems

Þegar við heimsækjum framandi staði tökum við stundum mynd af okkur sjálfum með merkisbyggingu eða fallegt landslag í bakgrunni.

Í lok október gerði túristinn Curiosity slíkt hið sama á Mars!

Curiosity er jarðfræðingur á hjólum, útbúinn fyrsta flokks vísindatækjum. Á honum er armur sem hann getur teygt rúman metra út á við. Á enda armsins eru ýmis tæki og tól sem jarðfræðingur myndi nota til að kanna umhverfi sitt, þar á meðal lúpa, eitt mikilvægasta hjálpartæki jarðfræðings. Lúpan nefnist Mars Hand Lens Imager eða MAHLI og er í raun smásjármyndavél með háa upplausn.

Þann 31. október breiddi Curiosity út arminn og tók mynd af sjálfum sér eins og montiinn túristi með fyrirheitna landið í bakgrunni. Til að ná mynd af sér í heilu lagi varð hann að taka 55 ljósmyndir sem síðan var púslað saman í eina stórkostlega mynd — þetta er klárlega ein af myndum leiðangursins. Aldrei áður hefur sendifulltrúi jarðarbúa tekið mynd af sjálfum sér á öðrum hnetti!

Þegar myndin var tekin var Curiosity staddur við Rocknest, litla sandöldu. Þar tók hann sínar fyrstu skóflustungur á Mars sem sjá má við vinstri hlið myndarinnar fyrir miðju. Hann gleypti sýnin og efnagreindi þau svo með tækjum sínum.

Þessa frábæru sjálfsmynd túristans Curiosity á Mars veljum við stjörnuljósmynd ársins 2012!

Tengt efni

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
E-mail: [email protected]
Sími: 8961984

Vefvarp

  • SjónaukinnÍ fjórða þætti sjónaukans er fjallað um tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2012. Sjáðu þáttinn hér.