Stormasöm Lónþoka

Sævar Helgi Bragason 30. júl. 2015 Fréttir

Þótt kyrrð sé yfir heiti Lónþokunnar er svæðið stormasamt. Þar blása sterkir vindar frá heitum stjörnum innan um ólgandi gasstraumar og öfluga myndun nýrra stjarna.

  • Lónþokan á mynd Hubble geimsjónaukans

Geimþokur — glóandi heit gas- og rykský — eru meðal fallegustu fyrirbæra í alheiminum. Á þessari nýju mynd frá Hubble geimsjónauka NASA og ESA sést miðja Lónþokunnar. Þótt kyrrð sé yfir nafninu er svæðið stormasamt. Þar blása sterkir vindar frá heitum stjörnum innan um ólgandi gasstraumar og öfluga myndun nýrra stjarna.

Geimþokur eru oft nefndar eftir því hvernig þær birtast í gegnum stjörnusjónauka. Augljós dæmi eru til að mynda Hringþokan í Hörpunni, Riddaraþokan í Óríon og Fiðrildaþokan í Einhyrningum. Á þessari nýju mynd frá Hubble geimsjónaukanum sést miðja Lónþokunnar, Messier 8, í stjörnumerkinu Bogmanninum.

Uppruni nafnsins á þessari þoku er kannski ekki augljós í fljótu bragði, einfaldlega vegna þess að á myndinni sést eingöngu miðja þokunnar. Nafn Lónþokunnar verður mun augljósara þegar hún er skoðuð í gegnum sjónauka eða á víðmynd.

Myndin sem hér sést er sett saman úr bæði innrauðu og sýnilegu ljósi. Innrauða ljósið berst í gegnum þykk gas- og rykský og leiða í ljós ýmsar faldar myndanir og allt annars konar landslag. Í sýnilegu ljósi sjást líka ýmsar ofsafengnar myndanir.

Bjarta stjarnan í dökku skýjunum á miðri mynd kallast Herschel 36. Hún mótar gasið og rykið í nágrenninu með sínum öflugum vindum og sínu orkuríka útfjólubláa ljósi sem jónar gasið svo það gefur frá sér birtu.

Myndin var tekin með Wide Field Planetary Camera 2 á Hubble geimsjónaukanum.

Lónþokan á mynd Hubble geimsjónaukans
Lónþokan á mynd Hubble geimsjónaukans. Mynd: NASA, ESA, J. Trauger (Jet Propulson Laboratory)

Mynd: NASA, ESA, P. Goudfrooj (STScI)