Vetrarbraut með tvö hjörtu

Sævar Helgi Bragason 09. jan. 2014 Fréttir

Á nýrri mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA sést þyrilvetrarbrautin Messier 83 betur en nokkru sinni fyrr

  • Ljósmynd Hubble geimsjónaukans af bjálkaþyrilþokunni Messier 83

Á þessari nýju mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA sést þyrilvetrarbrautin Messier 83, einnig þekkt sem Suðursvelgurinn. Hún er ein stærsta og nálægasta bjálkaþyrilþokan við Vetrarbrautina okkar og bæði tilþrifamikil og leyndardómsfull. Í henni hefur fjöldi sprengistjarna sést, auk þess sem hún er talin geyma tvöfaldan kjarna í miðjunni.

Messier 83 er glæsileg vetrarbraut í um 15 milljón km fjarlægð frá okkur í stjörnumerkinu Vatnaskrímslinu, á suðurhveli himins. Hún er ein mest áberandi meðlimurinn í vetrarbrautahópi sem kallast Centaurus A/M83 hópurinn, sem einnig inniheldur hina rykugu Centaurus A og óreglulegu vetrarbrautina NGC 5253.

Þyrilvetrarbrautir eru flokkaðar eftir útliti og uppbyggingu — til dæmis hve þéttofnir þyrilarmarnir eru og einkennum miðbungnanna. Messier 83 geymir bjálka úr stjörnum gengur í gegnum miðjuna og heyrir því til bjálkaþyrilþoka. Vetrarbrautin okkar er sömu gerðar.

Bjálkarnir eru taldir verka nokkurn veginn eins og trektir sem beinir gasi í átt að miðju vetrarbrautarinnar. Gasið nýtist í nýjar stjörnur og einnig til að fæða svartholið í miðjunni. Þetta skýrir hvers vegna margar bjálkaþyrilþokur eins og Messier 83 hafa mjög virkar og bjartar miðjur.

Miðsvæði Messier 83 eru dularfull og óvenjuleg. Í miðjunni er tvöfaldur kjarni, samskonar fyrirbæri og sést hefur í Andrómeduþokunni, nálægustu þyrilþokunni við okkur. Þetta þýðir þó ekki að Messier 83 hafi tvö risasvarthol, heldur að svartholið er sennilega umvafið ósamhverfri skífu úr stjörnum sem hringsóla um svartholið og mynda útlit tvöfalds kjarna. Tvöfaldi kjarninn sést ekki beint, heldur hefur hann fundist með rannsóknum á efnisdreifingu innan vetrarbrautarinnar.

Í Messier 83 hafa einnig sést sex sprengistjörnur (SN 1923A, SN 1945B, SN 1950B, SN 1957D, SN 1968L og SN 1983N). Aðeins tvær aðrar vetrarbrautir hafa skartað sambærilegum fjölda: Messier 61, einnig með sex og NGC 6946 með níu. Einnig hafa næstum 300 sprengistjörnuleifar greinst í Messier 83. Einnig hafa um 3000 stjörnuþyrpingar fundist, sumar mjög ungar eða innan við 5 milljón ára.

Þessi glæsilega mynd var tekin með Wide Field Imager 3 í Hubble. Á henni sést vetrarbrautin í fullum skrúða með dökkum rykslæðum, eldrauðum gasskýjum og skærbláum stjörnuþyrpingum í þyrilörmunum. Messier 83 er rétt innan við helmingur af stærð Vetrarbrautarinnar.

Mynd: NASA, ESA og William Blair (Johns Hopkins University)

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
E-mail: [email protected]
Sími: 8961984