Hubble skoðar Apahöfuðþokuna

Sævar Helgi Bragason 14. mar. 2014 Fréttir

Í tilefni 24 ára afmælis Hubblessjónaukans hafa stjörnufræðingar birt nýja og glæsilega mynd af litlu svæði Apahöfuðþokunni

  • Apahöfuðþokan NGC 2174

Í tilefni af 24 ára starfsafmæli Hubble geimsjónauka NASA og ESA á braut um Jörðu, hafa stjörnufræðingar birt nýja og glæsilega mynd af litlu svæði í NGC 2174, sem einnig er kölluð Apahöfuðþokan. Á þessu litríka svæði er sægur ungra stjarna sveipaðar björgum gas- og rykslæðum.

NGC 2174 er geimþoka í um 9.400 ljósára fjarlægð frá Jörðinni i stjörnumerkinu Óríon. Árið 2001 tók Hubble mynd af þessu sama svæði og birtist hún árið 2011. Geimsjónaukinn hefur nú skoðað svæðið aftur í tilefni af 24 ára afmæli sínu á braut um Jörðina.

Geimþokur eru algeng viðfangsefni hjá Hubble. Geimþokur prýða enda margar af frægustu myndum Hubbles, eins og afmælismyndir hans af Tarantúluþokunni og Riddaraþokunni og jólamyndin 2012.

Þessi nýja mynd hefur á sér sama draumkennda blæ og hinar, með sínum litríkum gasstrókum og glóandi björtum stjörnum. Myndin sýnir reyndar aðeins lítinn hluta af NGC 2174, geimþoku sem minnir á Apahöfuð á víðmyndum.

Apahöfuðþokan er ofsafengið stjörnumyndunarsvæði, uppfultl af hráefnum í nýjar stjörnur. Hins vegar er matreiðslan ekkert sérstaklega afkastamikil og miklum hluta gassins og ryksins er sóað þegar það fýkur burt. Ungar, brennheitar stjörnur blása öflugum vindum sem hraða þessu ferli.

Staðurinn er litríkur. Dökkbrún og ryðrauð rykský bylgjast út á við fyrir framan ljósblátt gas í bakgrunni. Blæbrigðin má rekja til þess að nokkrum innrauðum ljósmyndum Hubbles, sem teknar voru í gegnum mismunandi litsíur, var skeytt saman til að draga fram liti sem ber augu nema ekki.

Sjá má hvítar og bleikar stjörnur á víð og dreif um glóandi gasskýið, sem blása burt dökku skýjunum sem þær klöktust út úr. Vetnisgas er lykilhráefnið í NGC 2174, jónað útblárri geislun frá ungu stjörnunum. Fyrir vikið kallast svæði af þessu tagi rafað vetnisský — stórt ský úr jónuðu gasi.

Myndin var tekin með Wide Field Camera 3 og markar 24 ára afmæli Hubblessjónaukans í geimnum.

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Farsími: 896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Tengdar myndir

  • NGC 2174NGC 2174, eða Apahöfuðþokan, er stjörnumyndunarsvæði í um 6.400 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Óríon. Myndin sýnir þokuna í innrauðu ljósi. Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team (STScI/AURA)
  • NGC 2174Hér sést víðmynd frá Digitized Sky Survey 2 af Apahöfuðþokunni NGC 2174. Myndin sýnir þokuna í sýnilegu ljósi. Mynd: NASA, ESA, Digitized Sky Survey (DSS), STScI/AURA, Palomar/Caltech