Tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2016

Sævar Helgi Bragason 01. jan. 2017 Fréttir

  • R136 í Tarantúluþokunni

Stjörnufræði er myndræn vísindagrein. Ár hvert eru þúsundir ljósmynda teknar af undrum alheimsins, hvort sem er af stjörnuáhugafólki, stjörnufræðingum eða vélvæddum sendifulltrúum jarðarbúa í sólkerfinu. Margar þessara mynda eru gullfallegar, oft hreinustu listaverk, sem verðskulda að sem flestir fái notið.

Hér höfum við valið tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2016. Þessar myndir voru fyrst og fremst valdar út frá fegurð (sem er huglætt mat hvers og eins), en ekki síst vísindalegu. Við hverja mynd er lýsing á því sem fyrir augun ber. Viðfangsefnin eru nefnilega ekki síður áhugaverð en falleg.

10. Þyngstu stjörnur himingeimsins

R136 í Tarantúluþokunni í Stóra Magellansskýinu
Mynd: NASA, ESA, P Crowther (University of Sheffield)

R136 er stjörnuþyrping í um 170.000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í Tarantúluþokunni í Stóra Magellansskýinu. Í henni er eitt stærsta safn mjög massamikilla, heitra og skærra stjarna í nágrenni okkar. Þessar stjörnur gefa að mestu leyti frá sér útfjólublátt ljós sem berst illa í gegnum lofthjúpinn okkar, svo beita þurfti Hubblessjónaukanum til að rannsaka þær og vindana sem þær gefa frá sér.

9. Köldustu svæði Vetrarbrautarinnar kortlögð

ATLASGAL kortlagningin
Mymd: ESO/APEX/ATLASGAL consortium/NASA/GLIMPSE consortium/ESA/Planck

Undanfarin ár hefur APEX sjónauki ESO í Chile kortlagt allan flöt Vetrarbrautarinnar sem sést frá suðurhveli Jarðar á hálfsmillímetra bylgjulengdum — milli innrauðs ljóss og útvarpsbylgna — í mun meiri smáatriðum en önnur kortlagningarverkefni. Þannig má skyggnast inn í köldustu svæði Vetrarbrautarinnar þar sem stjörnur eru að fæðast. ESO birti kortið árið 2016.

8. Sverðþokan í innrauðu ljósi

Sverðþokan í innrauðu ljósi
Mynd: ESO/H. Drass et al.

Stjörnufræðingar notuðu innrauða mælitækið HAWK-I á Very Large Telescope (VLT) ESO í Chile til að skyggnast dýpra inn í Sverðþokuna í Óríon en nokkru sinni fyrr. Myndirnar eru glæsilegar og sýna þær tífalt fleiri brúna dverga og staka hnetti, álíka efnismikla og reikistjörnur, sem voru áður óþekkt. Sverðþokan er um 24 ljósár á breidd í stjörnumerkinu Óríon. Hún sést vel frá Jörðinni, jafnvel með berum augum sem daufur þokublettur í sverði Óríons.

7. Norðurpóll Satúrnusar

Norðurpóll Satúrnusar
Mynd: NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute

Hér sést norðurpóll Satúrnusar baðaður sólarljósi. Sexhyrnda skotvindasvæðið í kringum pólinn sést vel en í miðju hans er dökkleitur blettur. Dökku skýin eru lægra í lofthjúpnum og því örlítið hlýrri en ljósleitu háskýin. Leiðangri Cassini geimfarsins til Satúrnusar lýkur árið 2017 en þangað til verður útsýnið yfir þessa tignarlegu reikistjörnu engu líkt.

6. Afmæliskúla Hubblessjónaukans

Bóluþokan (NGC 7635) í Kassíópeiu
Mynd: NASA, ESA, Hubble Heritage Team

Hubble geimsjónauki NASA og ESA fagnaði sínu 26. starfsári í geimnum með því að senda okkur þessa glæsilegu mynd af Bóluþokunni. Bóluþokan er í um 8000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Kassíópeiu. Í miðju Bóluþokunnar er stjarna sem kallast SAO 20575. Hún er blár ofurrisi, milli 10-20 sinnum massameiri en sólin okkar og meira en 30.000°C heit, sex sinnum heitari en sólin. Þessi stjarna sendir frá sér öfluga vinda sem blása út bóluna.

5. Setlög á Mars

Setlög á Mars
Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS

Curiosity jeppi NASA hefur síðastliðið ár verið að rannsaka setllög við rætur Sharp-fjalls í Gale gígnum á Mars. Þessi glæsilega mynd sýnir setlög í ævafornum sandsteini. Hvert lag segir sögu um umhverfisaðstæðurnar sem það myndaðist í, bæði loftslags- og jarðsögu. Neðstu lögin eru eldri en þau sem fyrir ofan eru.

4. Fjallið í miðju Occator gígsins á Ceresi

Fjall í miðju Occator gígsins á Ceresi
Mynd: NASA/JPL-Caltech/UCLA/MPS/DLR/IDA

Leiðangri Dawn geimfars NASA til dvergreikistjörnunnar Ceresar lýkur árið 2017. Hér sést mynd sem geimfarið tók af fjalli í miðju gígsins Occator á Ceresi og valdið hefur vísindamönnum heilabrotum um árabil því hann var miklu ljósari en svæðin í kring. Talið er að ljósa litinn megi rekja til salts. 

3. Jarðsetur á tunglinu

Jarðsetur á tunglinu
Mynd: JAXA

Jarðarupprás, eða jarðsetur öllu heldur, frá tunglinu. Reyndar rís Jörðin hvorki né sest frá tunglinu séð. Tunglið snýr alltaf sömu hliðinni að Jörðinni svo Jörðin er alltaf nánast á sama stað á tunglhimninum. Vegna tunglvaggs virðist Jörðin vagga örlítið á tunglhimninum. Eina leiðin til að sjá Jörðina rísa yfir tunglinu er að vera um borð í geimfari á sporbraut um tunglið. Þá rís Jörðin þegar við færumst yfir á nærhliðina, eins og sést á þessari mögnuðu mynd frá japanska geimfarinu Kaguya.

2. Hvíldarstaður Philae á halastjörnunni 67P/Churyumov-Gerasimenko

Hvíldarstaður Philae á halastjörnunni 67P/Churyumov-Gerasimenko
Mynd: ESA/Rosetta/MPS for OSIRIS Team MPS/UPD/LAM/IAA/SSO/INTA/UPM/DASP/IDA

Eftir langa leit fannst Phile geimfarið litla, sem er á stærð við þvottavél, á myndum sem móðurfarið Rosetta tók 2. september 2016 úr 2,7 km hæð af halastjörnunni 67P/Churyumov-Gerasimenko. Kemurðu auga á það? Það er á skyggða svæðinu hægra megin, rétt fyrir ofan miðja mynd. Kannski þessi mynd hjálpi þér að finna það . Í lok september lauk leiðangri Rosetta formlega þegar móðurfarið lagðist sjálft til hvílu á ísilögðu yfirborði halastjörnunnar.

1. Gárur í tímarúminu — 100 ára gömul spá Alberts Einstein staðfest!

Þyngdarbylgjur
Mynd: Caltech/MIT/LIGO Lab

Kannski ekki fallegasta mynd þessa árs en ótvírætt sú þýðingamesta — og byltingarkenndasta.

Fyrir 1,3 milljörðum ára runnu tvö svarthol, 34 og 29 sinnum efnismeiri en sólin, saman í eitt 60 sólmassa svarthol. Á sekúndubroti umbreyttist sem samsvarar þremur sólmössum af efni í orku samkvæmt jöfnunni E = mc2. Á því augnabliki losnaði meiri orka en sem nam heildarorkuútgeislun allra stjarna í alheiminum samanlagt. Við samruna svartholanna gáraðist tímarúmið svo til urðu þyngdarbylgjur. Í september 2015 bárust þyngdarbylgjurnar í gegnum Jörðina og hreyfðu til tvo spegla í tveimur þyngdarbylgjusjónaukum í Bandaríkjunum. Hundrað árum áður hafði Albert Einstein fyrir um tilvist þyngdarbylgna með almennu afstæðiskenningunni.

Þyngdarbylgjufræði er ný leið til að rannsaka alheiminn. Áður gátum við aðeins notað augun til að skyggnast út í geiminn, nú getum við hlustað á hann líika. Sjá: Hvað er svona merkilegt við þyngdarbylgjur?

Mælingar LIGO voru ennfremur fyrsta beina sönnunin fyrir tilvist svarthola, en áður höfðu menn aðeins óbeinar (en mjög sannfærandi) sannanir fyrir tilvist þeirra.

gw

Tengt efni